Flestir kylfingar landsins fylgdust með ótrúlegri endurkomu Tiger Woods á dögunum og spennan fyrir því að byrja að spila skiljanlega mikil. Stutt er í að golfsumarið hefjist og á golfvellinum Brautarholti er allt að verða klappað og klárt.

„Við erum bara á góðu róli og völlurinn kemur að mestu leyti vel undan vetri,“ segir Ellert Jón Þórarinsson, Vallarstjóri á golfvellinum Brautarholti.

Nú styttist í að golfsumarið fari af stað og Ellert segir allt ganga samkvæmt áætlun. Hann segir að vel verði að halda á spöðunum svo allt gangi upp en um næstu mánaðarmót ætti allt að fara á flug.

Vefurinn Golfscape setti á dögunum Brautarholtsvöll á lista yfir 18 áhugaverða golfvelli um allan heim. Á listanum er mælt með völlum til að spila á ferðalagi um heiminn. Golfscape er vefur sem selur golfferðir um allan heim og þetta er ekki í fyrsta skipti sem Brautarholtsvöll er á lista; völlurinn er í 62. sæti á lista vefsins yfir bestu golfvelli heims.

Ellert segir að þessi athygli skili sér í auknum áhuga erlendra kylfinga og bætir við að Brautarholtsvöllur sé svolítið öðruvísi en hefðbundnir íslenskir golfvellir. „Hann er ekki þessi týpíski gölfvöllur,“ segir Ellert. „Hann er á flottum stað, umkringdur náttúrufegurð — einskonar falin perla. Það eru margir sem koma, íslendingar og útlendingar, og eru hissa á hvað völlurinn er stutt frá Reykjavík.“

Ellert býst við góðu golfsumri, sérstaklega vegna þess að það síðasta olli svolitlum vonbrigðum og því margir þyrstir að komast út í ár. „Ég gæti trúað að það verði svolítið action,“ segir hann. Þá játar hann að sigur Tiger Woods á Masters-mótinu hafi jákvæð áhrif. „Sigur Tigers er vítamínsprauta,“ segir Ellert áður en við hleypum honum aftur af stað í vinnuna. Enda nóg að gera!

Á golfvellinum Brautarholti er svokölluð Rauð aðild í boði. Þú greiðir 29 þúsund krónur og spilar fimm hringi í sumar. Innifalið er skráning í forgjafarkerfi GSÍ og þú greiðir aðeins 2.500 krónur fyrir hringinn á fimm vinavöllum. Smelltu hér til að senda okkur póst og kaupa Rauða aðild.